Körfubolti

Shaquille O´Neal allur að koma til

NordicPhotos/GettyImages
Shaquille O´Neal virðist vera að ná heilsu á ný eftir löng og erfið meiðsli, en í nótt skoraði hann 22 stig á aðeins 21 mínútu í sigri Miami Heat á Charlotte. Dwyane Wade skoraði 27 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir Miami sem vann fjórða leikinn í röð, en Raymond Felton skoraði 20 stig fyrir Charlotte.

Stephen Jackson var sínum gömlu félögum í Indiana erfiður þegar hann skoraði 36 stig fyrir Golden State í góðum 113-98 útisigri á Indiana. Þessi lið gerðu stór leikmannaskipti fyrir nokkru, en mikil meiðsli eru í herbúðum Golden State þessa dagana. Jermaine O´Neal var stigahæstur í liði Indiana með 24 stig.

Kobe kláraði Atlanta

LA Lakers skellti Atlanta á útivelli 90-83 og vann þar með báða leiki sína gegn Atlanta í fyrsta skipti í sjö ár. Það verður að teljast nokkuð ótrúleg tölfræði í ljósi þess að Atlanta hefur verið eitt af slakari liðum deildarinnar allan þann tíma. "Það var gott að losna við þessi álög. Ég veit ekki af hverju, en okkur hefur alltaf gengið bölvanlega hérna í Atlanta," sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers. Kobe Bryant hafði hægt um sig þangað til í fjórða leikhlutanum en skoraði þá 9 stig í röð og tryggði Lakers sigurinn. Bryant skoraði 27 stig í leiknum líkt og Joe Johnson hjá Atlanta.

Enn eitt grátlegt tapið hjá Nets

New Jersey tapaði fjórða leiknum í röð og annað kvöldið í röð í framlengingu þegar liðið lá fyrir Philadelphia 100-98, en New Jersey hefur tapað grátlega mörgum leikjum á lokasekúndunum síðustu vikur. Vince Carter skoraði 23 stig og hirti 10 fráköst fyrir New Jersey en Andre Iguodala skoraði 23 stig og gaf 15 stoðsendingar fyrir Philadelphia, sem hefur gengið ótrúlega vel síðan þeir Allen Iverson og Chris Webber fóru frá liðinu.

Okur drjúgur á lokasprettinum

Utah lagði Chicago á heimavelli sínum í beinni á NBA TV. Þetta var í fyrsta sinn í fimm ár sem Utah vinnur báða leiki sína gegn Chicago. Það var tyrkneski miðherjinn Mehmet Okur sem tryggði Utah sigurinn með því að skora 12 af síðustu 14 stigum Utah á lokasprettinum. Okur skoraði 20 stig í leiknum og Deron Williams skoraði 19 stig og gaf 13 stoðsendingar. Kirk Hinrich skoraði 26 stig fyrir Chicago.

Melo með þrennu í tapi Denver

Phoenix vann mikilvægan útisigur á meiðslum hrjáðu liði Denver 113-108 þar sem Amare Stoudemire skoraði 36 stig og hirti 13 fráköst fyrir Phoenix en Carmelo Anthony náði sinni fyrstu þrennu á ferlinum með 33 stigum, 10 fráköstum og 10 stoðsendingum. Steve Nash meiddist á öxl í leiknum og þurfti að fara af velli um miðbik leiksins. Allen Iverson og Marcus Camby spiluðu ekki með Denver vegna meiðsla.

Washington lagði Seattle 118-108 á heimavelli þar sem stjörnuleikmaðurinn Caron Butler réttlætti sína fyrstu ferð í stjörnuleik með 38 stigum. Ray Allen skoraði 29 stig fyrir Seattle sem tapaði sínum 15. útileik í röð.

Houston burstaði Minnesota 105-77 og hefur lið Minnesota nú ekki unnið leik síðan það vann óvæntan sigur á Phoenix á dögunum. Tracy McGrady skoraði 32 stig fyrir Houston en Kevin Garnett skoraði 18 stig og hirti 12 fráköst fyrir Minnesota.

Loks vann Sacramento góðan sigur á New Orleans 105-99. Ron Artest skoraði 21 stig, gaf 9 stoðsendingar og stal 5 boltum hjá Sacramento en Chris Paul skoraði 24 stig fyrir New Orleans.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×