Erlent

Rússar gegn Serbum í Kosovo

Frá Kosovo.
Frá Kosovo. MYND/AP

Rússar hafa óvænt tekið afstöðu gegn Serbum varðandi sjálfstæði Kosovo héraðs. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til að Kosovo verði aðskilið frá Serbíu og fái aðild að alþjóðastofnunum. Það verði hinsvegar undir alþjóðlegu eftirliti áfram, og NATO sjái um friðargæslu.

Serbar líta á Kosovo sem vöggu þjóðarinnar og hafa algerlega hafnað þessum tillögum og töldu að þeir hefðu Rússa á bakvið sig, þeir hefðu lofað að koma í veg fyrir samþykkt slíkrar tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum.

Rússar hafa hinsvegar sent Serbum þau skilaboð að þeir verði að vera sveigjanlegir og að Vladimir Pútín, forseti, hafi aldrei lofað að beita neitunarvaldi gegn öllum tillögum um framtíð Kosovos. Kosovo er sárafátækt hérað. Íbúar þar eru um tvær milljónir og níutíu prósent þeirra af albönskum uppruna. Þeir vilja fá fullt sjálfstæði. Sameinuðu þjóðirnar hafa stýrt héraðinu síðan 1999, þegar Slobodan Miloisevits neyddist til að kalla hersveitir sínar heim þaðan, eftir margra vikna loftárásir NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×