Erlent

Boða mestu herferð gegn andófsmönnum sem farin hefur verið

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/AP

Herferð írakskra og bandarískra hersveita gegn andófsmönnum í Bagdad, sem staðið hafa fyrir fjömörgum blóðugum árásum undanfarna mánuði, hefst innan skamms og verður stærrri en nokkur aðgerð sem lagt hefur verið í frá því að ráðist var inn í Írak fyrir nærri fjórum árum. Frá þessu greindu þrír yfirmenn í bandaríska hernum í dag á blaðamannafundi en þeir hafa verið írakska hernum og lögreglu til ráðgjafar.

Sérstök aðgerðamiðstöð vegna herferðarinnar verður ræst á morgun og má reikna með að aðgerðin hefjist í framhaldinu. Samkvæmt áætlun yfirvalda verður hverjum steini velt við í leitinni að hermdarverkamönnum eða vopnum í höfuðborginni og látunum linnir ekki fyrr en borgin hefur öll verið könnuð.

Sumir sérfræðingar óttast hins vegar að uppreisnarmenn komist út úr borginni í felur og bíði þar til aðgerðinni lýkur eða láti til skrarar skríða annars staðar í Írak.

Ljóst er að hermannanna bíður mikið verk enda hefur hver mannskæð árásin verið gerð á fætur annarri í borginni, síðast í gær þar sem 135 létust og hundruðu særðust þegar flutningabíll með einu tonni af sprengiefni var sprengdur í loft upp í hverfi sjía.

George Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti á dögunum að hermönnum í Írak yrði fjölgað um ríflega 20 þúsund til að takast á við ástandið þar en stærstur hluti þeirra á að starfa í Bagdad og reyna að koma þar á lögum og reglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×