Enski boltinn

Chelsea heppið með dráttinn í bikarnum

Englandsmeistarar Chelsea voru einstaklega heppnir þegar dregið var í 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar nú í hádeginu því þar mætir liðið annaðhvort 1. deildarliðinu Norwich eða 2. deildarliðinu Blackpool. Manchester United var ekki eins heppið því það verður Reading sem kemur í heimsókn á Old Trafford.

Norwich og Blackpool skildu jöfn í leik sínum um helgina og þurfa því að mætast öðru sinni til að skera úr um hvort liðið fer í heimsókn á Stamford Bridge í næsta mánuði, en allir leikirnir í 16-liða úrslitunum fara fram helgina 17.-18. febrúar.

Erfitt verkefni bíður Ívars Ingimarssonar og Brynjars Björns Gunnarssonar hjá Reading enda lið Manchester United í mjög góðu formi um þessar mundir og stefnir á að landa enska bikarnum í lok leiktíðar.

Arsenal og Bolton, sem þurfa að mætast öðru sinni í næsta mánuði, mætir Blackburn í 16-liða úrslitunum og þá mætast Fulham og Tottenham.

1. deildarlið WBA fer í heimsókn til annaðhvort Middlesbrough eða Bristol City, Watford tekur á móti Ipswich og Manchester City sækir Preston heim.

Þá er öruggt að a.m.k. eitt 1. deildarlið verður í 8-liða úrslitunum því Plymouth og Derby County drógust gegn hvort öðru og mætast á heimavelli fyrrnefnda liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×