Enski boltinn

West Ham úr leik í enska bikarnum

Vincenzo Montella fagnar hér marki sínu gegn Stoke í dag á sinn sérstaka hátt - líkt og flugvél sem tekin er á loft.
Vincenzo Montella fagnar hér marki sínu gegn Stoke í dag á sinn sérstaka hátt - líkt og flugvél sem tekin er á loft.

Íslendingaliðið West Ham er úr leik í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir að hafa beðið 1-0 ósigur gegn Watford á heimavelli sínum í dag. Lítið var um óvænt úrslit í bikarnum í dag en Bristol City, sem leikur í 2. deild, náði að knýja fram annan leik gegn Middlesbrough með því að gera 2-2 jafntefli við liðið á heimavelli í dag.

Það var Anthony McName sem skoraði sigurmark Watford á Upton Park í dag en þrátt fyrir mikla pressu í síðari hálfleik náðu leikmenn West Ham ekki að jafna metin.

Leikmenn Middlesbrough fóru illa að ráði sínum gegn Bristol City en eftir að hafa náð 2-0 forystu í fyrri hálfleik slakaði liðið verulega á í þeim síðari. Það nýttu leikmenn Bristol sér og jöfnuðu metin.

Southend veitti Tottenham harða keppni á White Hard Line en mátti á endanum þola 3-1 tap. Robbie Keane, Jermaine Jenas og Hossam Mido skoruðu mörk Tottenham.

Fulham vann auðveldan sigur á Stoke þar sem Vincenzo Montella, Brian McBride og Tomasz Radzinski voru á skotskónum. Reading vann góðan útisigur á Birmingham, 3-2, þrátt fyrir að hafa stillt upp hálfgerðu varaliði í leiknum. Ívar Ingimarsson sat allan tímann á varamannabekk Reading.

Úrslit í öðrum leikjum urðu sem hér segir:

Barnet-Plymouth 0-2

Blackpool-Norwich 1-1

Crystal Palace-Preston 0-2

Derby County-Bristol Rovers 1-0

Ipswich-Swansea 1-0

Kl. 17:15 hefst viðureign Man. Utd og Portsmouth og er leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×