Erlent

Ísrael: Yfirmaður hersins hættur

Dan Halutz, fráfarandi yfirmaður ísraelska hersins.
Dan Halutz, fráfarandi yfirmaður ísraelska hersins. MYND/AP

Yfirmaður ísraelska hersins hefur sagt af sér embætti vegna rannsóknar hersins á stríðinu gegn skæruliðum Hisbollah í Líbanon í fyrrasumar. Þrýst hefur verið á afsögn hans allt frá því átökum lauk.

Árásir Ísraela á Líbanon hófust júlí síðastliðnum eftir að Hizbollah-liðar tóku tvö ísraelska hermenn höndum í áhlaupi yfir landamærin. Átökin stóðu í 34 daga. Um 1000 líbanar týndu lífi, flestir þeirra almennir borgarar. 116 ísraelskir hermenn féllu og 43 almennir Ísraelar féllu í flugskeytaárásum Hizbollah.

Ísraelsher hefur haft framkvæmd átakanna til rannsóknar um nokkurt skeið og mun þeirr rannsókn vera að ljúka. Ísraelska varnarmálaráðuneytði greindi síðan í gærkvöldi frá afsögn Dans Halutz, yfirmanns ísraelska hersins. Fjölmargir Ísraelar í Jerúsalem fögnuðu þegar fréttir bárust af afsögn hans Ísraelsher hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki lokið ætlunarverki sínu, það er að ganga milli bols og höfuðs á herskáum andstæðingum Ísraels í Líbanon.

Halutz er sagður hafa lagt ofuráherslu á loftárásir og að hafa beðið of lengi með að grípa til landhernaðar. Auk þess hafi hermenn á jörðu niðri verið illa vopnum búnir. Halutz segist hafi ákveðið að axla ábyrgð í málinu. Ísraelska útvarpið segir Ehud Olmert, forsætisráðherra, hafa reynt að tala um fyrir Halutz en það hafi ekki borið árangur.

Gærdagurinn var því erfiður fyrir forsætisráðherrann en auk hóf dómsmálaráðuneytið glæparannsókn á hlut Olmerts í einavæðingu annars stærsta banka Ísraels árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×