Körfubolti

Dallas með sigurkörfu á síðustu sekúndu

Josh Howard sést hér skora sigurkörfuna á síðustu andartökum leiksins í nótt.
Josh Howard sést hér skora sigurkörfuna á síðustu andartökum leiksins í nótt. MYND/Getty

Josh Howard tryggði Dallas sigur á Toronto í NBA-deildinni í nótt með því að skora sigurkörfuna þegar innan við sekúnda var til leiksloka. Dallas náði að vinna upp 16 stiga forystu Toronto á tiltölulega skömmum tíma og tryggja sér þannig sinn 17. sigur í síðustu 18 leikjum.

Þýski framherjinn Dirk Nowitzki var aðalmaðurinn í viðsnúningnum á leik Dallas í síðari hálfleik en hann skoraði alls 38 stig í leiknum. Flestir bjuggust við því að hann myndi taka lokaskotið í leiknum og tók Toronto til þess ráðs að tvídekka þann þýska. Við það losnaði hins vegar um Howard og Dallas nýtti sér það til hins ýtrasta. Howard fékk góða sendingu undir körfuna og skoraði með auðveldu sniðskoti. Lokatölur urðu 97-96.

"Þetta var heppni," viðurkenndi Nowitzki eftir leikinn, en hann var einnig með 11 fráköst, fimm stoðsendingar, þrjú varin skot og tvo stolna bolta. "Það var rétt af Jason (Terry, leikstjórnanda Dallas) að gefa á Josh undir það síðasta. Hann var galopinn og kláraði færið einstaklega vel," bætti Nowitzki við.



Einn annar leikur var á dagskrá í nótt; Denver vann aðeins sinn annan leik af síðustu níu gegn Portland í nótt, 109-93. Allan Iverson fór fyrir sínum mönnum og skoraði 32 stig auk þess að gefa níu stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×