Fótbolti

Walter Smith ver ákvörðun sína

Walter Smith náði frábærum árangri með skoska landsliðið en gat ekki hafnað gylliboði Glasgow Rangers.
Walter Smith náði frábærum árangri með skoska landsliðið en gat ekki hafnað gylliboði Glasgow Rangers. MYND/AFP

Walter Smith, frávarandi þjálfari skoska landsliðsins og nýráðinn þjálfari Glasgow Rangers í Skotlandi, hefur varið ákvörðun sína um að yfirgefa herbúðir landsliðsins til að snúa aftur á Ibrox. Smith segir að nánast allir knattspyrnustjórar í heiminum hefðu tekið sömu ákvörðun og hann.

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna Smith fyrir að hætta fyrirvaralaust með landslið Skota, einmitt þegar það þurfti mest á honum að halda. Smith, sem áður hefur verið við stjórnvölinn hjá Rangers með mjög góðum árangri, hafði gert frábæra hluti með landsliðið og m.a. stýrt liðinu til toppsætis í undanriðli sínum fyrir EM, þar sem liðið er í riðli með ekki ómerkari þjóðum en Frakklandi og Ítalíu. Smith tekur við starfi Paul Le Guen hjá Rangers, en hann var rekinn fyrir nokkrum vikum.

"Ég get ekki haft áhrif á hugsanir fólks. Ég get ekkert sagt við fólk sem telur mig hafa stungið þjóðina í bakið. En allir sem hafa komið að máli við mig innan fótboltans segjast munu hafa tekið sömu ákvörðun. Ég held að 99% annara séu á sama máli," sagði Smith.

Skoska knattspyrnusambandið hefur ekki fundið eftirmann Smith en fráfarandi þjálfarinn óskar hverjum þeim sem hreppir starfið góðs gengis. "Ég óska landsliðinu alls hins besta og vona að komandi þjálfari verði farsæll í starfi sínu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×