Erlent

Höfrungar vernduðu sundmenn fyrir hákarli

Höfrungavaða verndaði fjóra sundmenn fyrir stórum hvítum hákarli, undan ströndum Nýja Sjálands, á dögunum. Mennirnir voru strandverðir, sem voru á æfingasundi um eitthundrað metra frá landi, þegar hákarlinn kom aðvífandi.

Rob Howes, einn strandvarðanna, sagði að þeir hefðu í fyrstu ekkert vitað af hákarlinum. Allt í einu hafi bara drifið að þeim höfrungavöðu sem smalaði þeim félögum saman í þéttan hóp með því að synda í þrönga hringi í kringum þá.

Þegar Rob reyndi að synda út úr hringnum skutust tveir höfrungar í veg fyrir hann, og það var þá sem hann sá hákarlinn, í tveggja metra fjarlægð frá sér.

Höfrungarnir syntu umhverfis mennina í fjörutíu mínútur, þartil hákarlinn fór. Þá fylgdu þeir þeim upp að ströndinni. Yfirleitt láta hárkarlar og höfrungar hverjir aðra í friði. Þó hefur sést til höfrunga ráðast á hákarla, þegar þeir hafa komið nærri þar sem höfrungakýr eru að bera.

Höfrungarnir synda þá á hákarlana á miklum hraða og berja þá þungum höggum í tálknin, með beinhörðu nefi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×