Viðskipti innlent

Björk og ríkisskulda-bréfin

Walter Updegrave, einn ritstjóra CNN Money tímaritsins, treystir sér ekki til að mæla með kaupum á íslenskum ríkisskuldabréfum í svari við fyrirspurn sem birtist á vefsíðu tímaritsins. Ritstjórinn segir að vissulega hafi ávöxtun ríkisskuldabréfa verið góð undanfarin ár. Hins vegar beri að hafa í huga að krónan hafi sjaldan verið jafn sterk gagnvart Bandaríkjadal. „Ef krónan styrkist áfram verðurðu alveg örugglega í sjöunda himni, eins og Íslendingarnir segja,“ skrifar Updegrave. Hann varar hins vegar við því að vel geti farið svo að krónan veikist um allt að fimmtán prósent gagnvart dal næsta árið. Updegrave bætir við að óvenjulegt sé að fá fyrirspurn um íslenskt efnahagslíf, Bandaríkjamenn séu vanari að fylgjast með uppátækjum söngkonunnar Bjarkar sem hann segir hafa undarlegasta fatasmekk í heimi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×