Skoðun

Hverju er Ingibjörg Sólrún búin að lofa fyrir okkar hönd?

Á vefsíðu ísraelska utanríkisráðuneytisins hinn 16. júlí sl. segir frá heimsókn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Ísraels. Þar er greint með velþóknun frá því hverja hún muni ræða við í heimsókn sinni og hvert hún muni fara, en það er meðal annars til „norðurlandamæra Ísraels sem liggja að Sýrlandi og Líbanon." Þetta er hluti hernumdu svæðanna - landsvæða sem Ísrael sölsaði undir sig í sex-daga stríðinu árið 1967 og eru þau ekki viðurkennd sem ísraelskt land af Sameinuðu þjóðunum. Á vefsíðunni segir einnig að áhugi íslensku ríkisstjórnarinnar á því að koma á þessar slóðir sé framboð Íslendinga í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009-2011. Nú hefur komið fram að ísraelsk stjórnvöld hafa verið afar ánægð með málflutning og afstöðu Ingibjargar Sólrúnar í nýafstaðinni heimsókn, jafnvel viljað fá hana sem málamiðlara í „deilunni" við Palestínumenn, að hennar sögn.



Í framhaldinu hljóta fjölmiðlar að ganga eftir því við utanríkisráðherrann hverju hún sé að lofa fyrir hönd þjóðarinnar í viðræðum af þessu tagi. Hvers vegna eru Ísraelar svona himinlifandi? Og hvað veldur því að fulltrúi Bush-stjórnarinnar bandarísku kemur skælbrosandi af fundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Reykjavík nýlega og segist hliðhollur því að Ísland fái sæti í Öryggisráðinu? Hafði hann sannfærst um að engin breyting yrði á utanríkisstefnu Íslands með tilkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn landsins; að áfram yrði fylgt Bush-línunni? Væntanlega er keppikeflið ekki einvörðungu að fá sæti í Öryggisráðinu, heldur hlýtur málið að snúast um hvað við ætlumst fyrir, þá stefnu sem fulltrúi Íslands kæmi til með að fylgja. Hinn nýi utanríkisráðherra hefur nú ráðið sérstakan starfsmann til að sjá um áróðurinn fyrir því að við hreppum sætið. En hvaða rökum á þessi starfsmaður að tefla fram? Hvaða stefnu segir hann að Íslendingar muni fylgja, til dæmis gagnvart mannréttindabrotum Ísraelsríkis?



Höfundur er þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×