Heilsa

Enginn gleiðgosaháttur

Smekklegur að utan og notalegur íburður að innan.
Smekklegur að utan og notalegur íburður að innan. Fréttablaðið/GVA

Honda Accord executive býður af sér góðan þokka og kemur fyrir sem hógvær en kraftmikil skepna. Við fyrstu kynni virkaði Honda Accord executive svolítið eins og félagsheimilið í myndinni Með allt á hreinu.



Það var lítið að sjá að utan en þegar inn var komið blasti risastór, glansandi salur við Stuðmönnum. Íburður Hondunnar er sambærilegur og það höfðaði til mín því það er alltaf ákveðinn klassi yfir því að vera ekki endilega með „blíngblíngið“, glysið og glamúrinn útum allt að hætti olíufursta.



Excecutive-útgáfan af Hondu Accord er meðal annars búin leðursætum og sóllúgu sem er góð blanda, sér í lagi þegar veðurblíðan leikur við landsmenn. Á milli framsætanna er að finna mörg þægileg geymsluhólf og öruggur staður fyrir GSM-símann er undir útvarpstækinu en það er ótvíræður kostur, því hver kannast ekki við það að gemsinn flýgur undir bílsætið ef maður leggur hann óvart frá sér á rangan stað?



Að aka Hondu Accord var nánast óaðfinnanlegt. Viðnám stýrisins hóflega eftirgefanlegt, hann er hljóðlátur og jafn snöggur upp og maður myndi búast við af bíl sem er búinn 2,4 lítra vél og 190 hestöflum. Skriðstillirinn var alger snilld þegar út fyrir höfuðborgina var komið og mjög auðvelt að slökkva og kveikja á honum, enda stjórnkerfið í stýrinu.



Mælaborð Hondunnar er með óbeinni, þrívíðri lýsingu sem skilaði sínu án þess að trufla og er það í samræmi við áðurnefndan hógværðar klassa.

Í nóvember í fyrra unnu tveir bílar frá Hondu (Honda Fit og Accord Hybrid) tvö efstu sætin í áreiðanleikakönnun sem gerð var á vegum CNN og almennt séð hefur þessi bíll notið mikilla vinsælda í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er ekki að undra því Honda Accord er eftirgefanlegur og samviskusamur gæðingur sem lætur vel að stjórn og veldur eiganda sínum ekki vonbrigðum.








×