Skoðun

Einka­væðing fyrir hvern?

Geysir Green Energy hafa eignast tæp 44 prósent í Hitaveitu Suðurnesja með kaupum á hlut ríkisins og sveitarfélaganna Vestmannaeyja, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs, Árborgar og Kópavogs. Reykjanesbær og Hafnarfjörður hafa enn ekki selt og óvíst hverjar fyrirætlanir þessara sveitarfélaga eru.

Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Geysis Green Energy sagði í viðtali við RÚV að kaup fyrirtækisins væru ekki einkavæðing heldur markaðsvæðing og virk samkeppni ætti að skila lægra verði til neytenda.

En hver er reynslan af bylgju markaðsvæðingar á undanförnum árum?

Ríkisbankarnir voru seldir og hefur útibúum fækkað auk þess sem þjónustugjöld og vextir hafa hækkað. Síminn var seldur og ein af fyrstu ákvörðunum nýrra eigenda var m.a. að stórminnka þjónustuna úti á landi auk þess sem íbúar á landsbyggðinni borga meira fyrir verri þjónustu.

Á Íslandi er engin samkeppni á orkumarkaði og hafa ný lög ekki breytt neinu þar um. Sú virðist einnig vera raunin í nágrannalöndum okkar, þar sem töluvert fleiri búa. Nýleg skýrsla í Svíþjóð sýnir svart á hvítu að markaðsvæðing orkufyrirtækja hefur ekki skilað neytendum neinu. Þvert á móti eru það orkufyrirtækin sem enn eru í opinberri eigu sem bjóða lægsta verðið, að jafnaði 24 prósentum lægra. Um leið skila þau mjög ásættanlegum hagnaði til eigenda sinna, sem eru íbúar viðkomandi sveitarfélaga.

Geysir Green Energy er búið að leggja 22,5 milljarða í kaup á Hitaveitu Suðurnesja og einhvern veginn þurfa þeir að ná inn þeim peningum. Líkurnar á samkeppni frá öðrum löndum, s.s. með flutningi rafmagns frá Evrópu um sæstreng eru engar. Því má ætla að viðskiptavinir Hitaveitu Suðurnesja, íbúar sveitarfélaganna sem seldu, eigi eftir að borga þann brúsa með einum eða öðrum hætti áður en yfir lýkur.

Einkavæðing eða markaðsvæðing mun því enn á ný sanna gildi sitt fyrir fjármagnseigendur.

Við, neytendur sitjum hins vegar eftir með sárt ennið.

Höfundur er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×