Erlent

Fengu blessun frá páfanum

Páfi hittir Gerry og Kate McCann.
Talsmaður Páfagarðs sagði harmleik þeirra hjóna hafa snert páfa mjög.
Páfi hittir Gerry og Kate McCann. Talsmaður Páfagarðs sagði harmleik þeirra hjóna hafa snert páfa mjög. MYND/AP
Gerry og Kate McCann, foreldrar fjögurra ára stúlku sem rænt var í Portúgal fyrir tæpum mánuði, gengu í gær á fund Benedikts sextánda páfa í Páfagarði í Róm.

„Hann var mjög vingjarnlegur, mjög einlægur,“ sagði Kate McCann um Benedikt páfa, sem veitti þeim blessun sína og sagðist ætla að biðja áfram fyrir dóttur þeirra.

„Þetta var miklu persónulegra en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér,“ sagði Gerry eftir að þau höfðu hitt páfa stuttlega á Péturs­torginu.

Við komuna til Rómar í gær sagði Gerry McCann það blendnar tilfinningar að vera kominn þangað á fund páfa. „Við venjulegar kringumstæður hefði þetta verið eitt af því mest spennandi sem við gætum gert á ævinni, en sú staðreynd að við erum hér án Madeleine er okkur mjög ofarlega í huga.“

McCann-hjónin eru kaþólskrar trúar og páfi féllst strax á að hitta þau eftir að breski kardinálinn Cormac Murphy-O‘Connor fór fram á það við Páfagarð.

McCann-hjónin hafa dreift myndum af dóttur sinni og biðja fólk um að dreifa þeim sem víðast. Á næstunni ætla þau að fara til Þýskalands, Hollands og Spánar í leit að dóttur sinni, en frá þessum löndum koma margir ferðamenn til ferðamannastaðarins í Portúgal þar sem dóttir þeirra hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×