Leikjavísir

God of War II - Fimm stjörnur

God of War II
God of War II

Nú rétt undir ævilok Playstation 2 kemur gullmoli frá Sony sem ber nafnið God of War II. Leikurinn er framhald hins afbragðsgóða God of War sem kom út fyrir tveimur árum.

Þar var spilarinn í hlutverki Kratos, herforingja í Grikklandi til forna, sem seldi sálu sína stríðsguðinum Ares í skiptum fyrir lífsgjöf. Eftir svik, blóð og frábæra skemmtun endaði leikurinn þegar Kratos drap Ares og tók sæti hans á Ólympusfjalli.

Framhaldið hefst stuttu eftir að fyrri leiknum lauk, og er Kratos enn stríðsguð. Vegna óstöðvandi blóðþorsta skipar hann herjum Spörtu að eyðileggja hinn byggilega heim eins og hann leggur sig, og uppsker óvild hinna guðanna á Ólympsfjalli. Seifur svíkur hann og sviptir hann guðatölunni, en títaninn Gaia kemur Kratos til bjargar og hjálpar honum að leggja á ráðin gegn Seifi. Með það hefst leikurinn og er markmiðið að elta uppi sjálfan konung guðanna til að drepa hann.

God of War II Svipar til fyrri leiksins en næstum allt er betur heppnað.

God of War II spilast á mjög svipaðan hátt og upprunalegi leikurinn, en nánast allt er aðeins betra en síðast. Sem fyrr svipar leiknum til bíómyndar, með löng og flott atriði inni á milli bardaga, og sagan er jafnvel enn stórfenglegri en áður. Bardagakerfið er lítið breytt enda var það nokkurn veginn fullkomið í fyrri leiknum.

Grafíkin er aðeins betri en áður og í raun magnað hvað framleiðendurnir ná að kreista mikið úr vélbúnaðinum. Hljóðið er óaðfinnanlegt og tónlistin með því besta sem ég hef heyrt í tölvuleik.

Það skal tekið fram að leikurinn er gríðarlega ofbeldisfullur, svo vægt sé tekið til orða, líkt og fyrirrennari hans. Ef eitthvað er hann enn blóðugri og hvorki fyrir viðkvæma né börn.

God of War II er nánast hinn fullkomni þriðju persónu hasarleikur. Sagan er stórfengleg, bardagakerfið frábært, tónlistin góð og allt eins epískt og á verður kosið. Þeir örfáu gallar sem hægt er að finna eru svo smávægilegir að það tekur ekki að nefna þá.

Þeir sem hafa gaman af þessari tegund leikja og hafa ekkert á móti töluverðu ofbeldi geta varla gert betri kaup en þennan leik.

Salvar Þór Sigurðarson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×