Erlent

Vísindamenn heiðraðir

Ungur vísindamaður ársins 2007 flutti erindi um rannsóknir sínar á vísindaþingi LSH.
Ungur vísindamaður ársins 2007 flutti erindi um rannsóknir sínar á vísindaþingi LSH.

Guðmundur Þorgeirsson prófessor var útnefndur heiðursvísindamaður Landspítala – háskólasjúkrahúss 2007 á föstudag. Útnefningin fór fram á vísindadagskrá við upphaf Vísinda á vordögum. Við sama tækifæri var Sveinn Hákon Harðarson valinn Ungur vísindamaður ársins 2007.

Guðmundur Þorgeirsson er sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði I á LSH. Hann útskrifaðist sem læknir frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1973. Að loknu kandídatsári á Landspítalanum lagði Guðmundur stund á framhaldsnám við Case Western Reserve háskólann í Cleveland og varði þar doktorsritgerð sína. Guðmundur hefur starfað á Landspítalanum frá heimkomu sinni árið 1982, fyrst sem sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum og síðar sem yfirlæknir á bráðamóttöku spítalans og yfirlæknir hjartadeildar. Hann hefur kennt við læknadeild Háskóla Íslands og setið í ritstjórn Læknablaðsins og erlendra vísindatímarita.

Sveinn Hákon stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands. Að loknum þremur námsárum við læknadeild tók Sveinn sér hlé frá námi. Hann vann þá við rannsóknir, fyrst á raflífeðlisfræðilegri kortlagningu á sjónhimnu í rottum og síðar á súrefnismettun í augnbotnum, undir handleiðslu Einars Stefánssonar, prófessors í augnsjúkdómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×