Skoðun

Atvinnustefna og náttúruvernd

Árni Páll Árnason skrifar
Samfylkingin er einn flokka um að hafa lagt fram heildstæða stefnu um náttúruvernd og auðlindanýtingu, Fagra Ísland. Samfylkingin hefur líka lagt fram verðlaunatillögur um eflingu sprotafyrirtækja og uppbyggingu hátækniiðnaðar. Það er engin tilviljun.

Samfylkingin er stór jafnaðarflokkur og þar rúmast fjölbreytt viðhorf. Það er helsti styrkur Fagra Íslands. Fyrst okkur tókst í Samfylkingunni að móta stefnu sem leggur grunn jafnt að náttúruvernd og auðlindanýtingu er ljóst að þjóðin getur náð slíkri sátt.

Við munum áfram þurfa að nýta orkuauðlindir okkar til verðmætasköpunar, eins og aðrar auðlindir. Þekking okkar á endurnýjanlegri orku er að verða verðmæt útflutningsvara. Nýir nýtingarkostir geta komið upp og kaupendur á borð við framleiðendur sólarrafhlaðna hafa þegar sýnt íslenskri orku áhuga.

Allt mælir með því að staldra nú við í byggingu frekari stórvirkjana og álvera. Ofþensla í efnahagslífinu og tröllauknir stýrivextir kalla á efnahagslegt aðlögunarferli til að forðast kollsteypur. Frekari stóriðjuuppbygging við núverandi efnahagsaðstæður myndi gera stöðu samkeppnisgreina enn erfiðari en nú er, sérstaklega á landsbyggðinni.

Brýnt er út frá náttúruverndarsjónarmiðum að nota tímann til að móta rammaáætlun um náttúruvernd, þar sem ákveðið er hvaða svæði megi nýta til orkuöflunar og hvaða svæði eigi að vernda. Þegar áherslur og þarfir breytast höfum við þá lokið forgangsröðun í þágu náttúrunnar og búið í haginn fyrir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda okkar til lengri tíma litið.

Það verður aldrei sátt um að við nýtum ekki auðlindir okkar. Fólk um allt land vill bæta lífskjör sín og efla atvinnulíf. Til þess verðum við að geta nýtt orkuauðlindir okkar með skynsamlegum hætti án þess að ganga á mikilvæg náttúrugæði eða ganga á hagsmuni annarra atvinnugreina. Þannig leggjum við grunn að fjölþættri atvinnustefnu sem nýtist okkur öllum og tryggir tækifæri fyrir alla. Þannig vill Samfylkingin vinna.

Höfundur er lögfræðingur og skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×