Skoðun

Illugi settur út í horn

Árni Páll Árnason skrifar
Undanfarnar vikur hef ég bent hér á tvískinnung og stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins í stóriðjumálum. Ég hef bent á að flokkurinn gæti án tafar gert tvennt til að tryggja markaðsverð á orku og styðja við umhverfisvernd: Skilyrt heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms við virkjanir í þágu almennings og skyldað orkufyrirtæki til að afla fjár á markaðskjörum til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju.

Illugi Gunnarsson skrifaði grein hér í blaðið á sunnudag. Þar skýrði hann að þegar hann fitjar upp á að afnumdar verði heimildir orkufyrirtækjanna til eignarnáms vegna virkjana í þágu stóriðju er hann að túlka sínar eigin prívatskoðanir. Hann staðfesti að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur hefur enga stefnu um raunhæfar aðgerðir til að koma í veg fyrir ríkisaðstoð af þessum toga til stóriðjuuppbyggingar. Einnig virðist Illugi ekki vilja tjá sig um þann vanda sem felst í ótakmörkuðum aðgangi opinberra orkufyrirtækja að erlendu lánsfé með ríkisábyrgð. Sú aðstaða felur í sér gríðarlega ríkisaðstoð til orkufyrirtækjanna og gerir þeim kleift að selja raforkuna á útsöluverði.

Eins og niðurlæging Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum væri ekki næg lýsti svo Geir H. Haarde því yfir í Silfri Egils að Guðlaugur Þór Þórðarson og Illugi Gunnarsson væru vonarsprotar íhaldsins í umhverfismálum. Bittinú. Sama dag og Morgunblaðið krýnir Illuga sem hugmyndafræðing flokksins í umhverfismálum, setur formaðurinn hann í handlangarasæti hjá Guðlaugi Þór, stjórnarformanni Orkuveitunnar. Guðlaugur Þór hefur hins vegar enga umhverfisstefnu sett fram, aðra en hina sovéskættuðu stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins.

Í síðustu viku spurði ég hvort Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að hafa a.m.k. tvær stefnur í orkumálum - eina fyrir Illuga og aðra fyrir höfuðkommissar Orkuveitunnar, Guðlaug Þór. Mér datt nú samt ekki í hug að Geir H. Haarde myndi fara að ómaka sig í sjónvarpssal til þess eins að svara þeirri spurningu játandi með jafn skýrum og ótvíræðum hætti og honum tókst í Silfrinu á sunnudag.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×