Handbolti

Alfreð Gíslason: Vinnum með góðri vörn

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari á von á mjög jöfnum og spennandi leik gegn Dönum í kvöld er liðin mætast í Hamborg í átta liða úrslitum á HM. Íslenska landsliðið tók létta æfingu í Colour Line höllinni í gærkvöldi eftir fjögurra tíma akstur frá Halle. Alfreð Gíslason var rólegur að sjá og hann gerir ráð fyrir jöfnum leik í kvöld.

„Þetta verður hörkuleikur og vonandi skemmtilegur. Ég tel þessi lið mjög áþekk að getu og Danirnir hafa hugsanlega aðeins meiri breidd en ég get samt ekki séð á mínum mönnum að þeir séu eitthvað þreyttir."

"Boldsen hjá Dönunum hefur verið að spila frábærlega á þessu móti og ég þykist nú vita að hann sé í lélegra formi en margir af okkar leikmönnum. Ég held að úrslit leiksins muni ráðast á stemningu, dagsforminu og síðan vörn og markvörslu," sagði Alfreð en Roland Eradze verður tæplega með íslenska landsliðinu en hann er með mikil útbrot á líkamanum sem eru afleiðing ofnæmis sem ekki hefur enn verið greint.

„Við verðum að standa vörnina gríðarlega vel og ef við gerum það þá er ég sannfærður um að við munum vinna þennan leik," sagði Alfreð sem hefur litlar áhyggjur af meiðslunum í hópnum.

„Ég hef ekkert miklar áhyggjur af stöðu mála. Það eru smáatriði hjá mörgum en helsta áhyggjuefnið á þessari stundu er Róbert en ég taldi rétt að láta mynda hann svo við værum vissir með stöðuna á honum," sagði Alfreð.

„Breiddin er að aukast hjá okkur og það er jákvætt og hjálpar okkur í þessum leik gegn Dönum. Ég er bjartsýnn og er viss um að úrslit ráðist á smáatriðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×