Innlent

Gengi krónunnar og hlutabréf lækkuðu vegna lækkaðs lánshæfismats ríkissjóðs

Gengi íslensku krónunnar lækkaði um tæp þrjú prósent í dag og hlutabréf í Kauphöll Íslands lækkuðu um tæp tvö prósent eftir að matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands um leið og það gagnrýndi þensluhvetjandi kosningafjárlög. Geir H. Haarde forsætisráðherra segir þetta rangan dóm yfir fjárlögunum.

Það virtist ekki breyta neinu þótt annað matsfyrirtæki, Moodys, hefðu nokkrum dögum áður tilkynnt um óbreytt lánshæfissmat.

Geir H. Haarde segir þetta óheppilegt og óvænt, sérstaklega í ljósi þess að Moodys sé fyrir nokkrum dögum búið að staðfesta sitt mat og gefi ríkissjóði hæstu einkunn. Hann segir það ekki réttan dóm að kalla fjárlögin þensluhvetjandi og minnir á að Moodys gefi hæstu einkunn vegna þess hve staða ríkisfjármála sé sterk. Afgangur sé á ríkissjóði samkvæmt fjárlögum upp á 9 milljarða króna, sem einhverntímann hefði þótt gott.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, segist ekki hress yfir matinu og að menn hefðu gjarnan viljað vera lausir við það. Nýja lánshæfismatið muni þó ekki valda ríkissjóði vandræðum vegna lítillar lánsfjárþarfar hans. Hann segir að áhrifin verði hinsvegar meiri á markaðinn og á stöðu krónunnar og þarmeð á verðbólgu. Hann óttast þó ekki að krónan haldi áfram að lækka því hún sé nú nærri sögulegu jafnvægi, ólíkt því þegar hún féll í vor. Davíð sagði í samtali við fréttastofuna í dag, að matsfyrirtækið Standard & Poor's sé iðið við að breyta lánshæfismatinu til hækkunar og lækkunar og ekki nærri því eins stabílt og Moody´s sem hélt sínu lánshæfismati óbreyttu. Davíð sagði að samkvæmt nýju einkunn Standard & Poor's væri Ísland með sömu einkunn og Ítalía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×