Innlent

Flugdólg hent úr vél í Halifax

Íslenskur karlmaður, sem lét ófriðlega í flugvél á leið frá Kúbu til Íslands í gær, var skilinn eftir ásamt konu sinni í Halifax í Kanada. Maðurinn mun hafa angrað áhöfn og farþega og barið konu sína þegar hún reyndi að róa hann.

Flugvélin, sem er í eigu flugfélagsins JetX, sem aftur er í eigu Heimsferða, fór frá Kúbu í gær áleiðis til Íslands. Millilenda átti í Halifax í Kanada til að skipta um áhöfn og fylla vélina af eldsneyti. Hjónin munu hafa tekið nokkuð af áfengi með sér í handfarangri í vélina og drukki af því þótt einungis megi neyta þess áfengis sem er á boðstólum í vélum félagsins.

Þagar skammt var til lendingar í Halifax mun maðurinn hafa verið orðinn töluvert ölvaður og tekið að láta ófriðlega. Að sögn fulltrúa Heimsferða mun hann hafa orðið æstur og sýnt áhöfn og samferðafólki dónaskap en við það hafi aðrir farþegar viljað að maðurinn yrði fluttur til í vélinni. Kona mannsins mun þá hafa reynt að róa eiginmann sinn en uppskorið barsmíðar frá honum að flugþjóni og farþegum ásjáandi. Flugstjórinn sem tók við vélinni í Halifax afréð að skilja hjónin eftir þar og halda án þeirra til Íslands. Vélin lenti svo í Keflavík snemma í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Heimsferðum mun félagið aðstoða hjónin við að komast heim óski þau þess en fréttastofa hefur ekki upplýsingar um að þess hafi verið óskað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×