Innlent

Viðræður við Dani á mánudaginn

Könnunarviðræður Íslendinga og Dana um samstarf á sviði öryggismála fara fram í Kaupmannahöfn á mánudaginn. Íslensk stjórnvöld eiga von á að þurfa að leggja út í kostnað vegna hugsanlegs varnarsamstarfs.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í Lettlandi í nóvemberlok ræddi Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra við starfsbræður sína í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Kanada um hugsanlegt samstarf á sviði varnar- og öryggismála. Ákveðið var að efna til viðræðna í framhaldinu og hefst fyrsta lotan á mánudag þegar könnunarviðræður við Dani hefjast.

Að sögn Grétar Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu er fyrst og fremst verið að kanna hvernig þær þjóðir sem umsvif hafa á Norður-Atlantshafi geti nýtt sér þann varnarviðbúnað sem er hér á landi og um leið haft eftirlit með landinu og miðunum.

Grétar Már ítrekar að varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn og samkomulagið sem var gert við þá í haust sé ennþá hornsteinninn í vörnum Íslands og ekki sé því gert ráð fyrir neinni fastri viðveru herliðs á vegum ríkjanna fjögurra. Öll hafi þau nokkur umsvif á norðanverðu Atlantshafinu, meðal annars vegna aukinnar skipaumferðar, og því vonast íslensk stjórnvöld til að þau vilji nota sér þá aðstöðu sem hér er fyrir. Grétar segir þó að gengið sé út frá því að kostnaður muni fylgja þessu samstarfi.

Á mánudaginn kemur norsk sendinefnd til landsins og er ráðgert að hún skoði varnarsvæðið á Miðnesheiði daginn eftir og þá aðstöðu sem þar er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×