Innlent

Grýla sendir Stekkjastaur til byggða

Grýla og Leppalúði brugðu sér í bæinn í gær í leit að jólakettinum. Þau fundu hann í Þjóðminjasafninu þar sem fjöldi barna var saman kominn til að bera hjónin ógurlegu augum. Í kvöld geta krakkar sett skóinn út í glugga, því í nótt kemur Stekkjastaur, fyrstur jólasveina, til byggða.

Jólakötturinn hitti krakkana fyrst í Þjóðminjasafninu og það var eftirvænting í hópnum þegar Leppalúði birtist. Grýla kom svo inn með miklum látum, en hjónin vildu vita hvort einhver óþæg börn væru í salnum.

Guðni Franzson sá um að skemmta börnunum með tónlist og Magga Stína söng við undirspil Harðar Bragasonar. Grýla og Leppalúði fundu svo jólaköttinn og náðu honum til að taka hann aftur til fjalla. Grýla er bæði með hófa og rófu, og segist borða börn ef þau eru mjög óþekk.

Grýla segir að Leppalúði sé aðeins betri en hún, en hann liggi yfirleitt í fletinu og prumpi.

Stekkjastaur kemur fyrstur til byggða í nótt og kemur við í Þjóðminjasafninu klukkan 11 í fyrrmálið, en jólasveinarnir munu allir, einn og einn, koma við í Þjóðminjasafninu kl 11 daginn sem þeir koma í bæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×