Enski boltinn

Liverpool upp í fimmta sæti

El-Hadji Diouf hjá Bolton komst lítt áleiðis gegn ívari Ingimarssyni og félögum í vörn Reading í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Reading sigraði, 1-0.
El-Hadji Diouf hjá Bolton komst lítt áleiðis gegn ívari Ingimarssyni og félögum í vörn Reading í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Reading sigraði, 1-0. MYND/Getty Images

Liverpool komst upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með góðum 4-0 útisigri á Wigan í dag þar sem öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Nýliðar Reading halda áfram að koma á óvart og hafði sætaskipti við Bolton með 1-0 sigri Sam Allardyce og lærisveinum hans í dag.

Craig Bellamy fann loksins fjölina sýna í Liverpool-treyjunni og skoraði tvö mörk í leiknum auk þess að leggja upp eitt til viðbótar fyrir Dirk Kuyt. Fjórða markið var sjálfsmark. Steven Gerrard átti þátt í þremur marka Liverpool og átti frábæran leik á miðjunni.

Ívar Ingimarsson spilaði allan leikinn fyrir Reading og Brynjar Gunnarsson kom inn á á 87. mínútu þegar liðið bar sigurorð af Bolton á heimavelli sínum, 1-0. Það var framherjinn Kevin Doyle sem skoraði sigurmarkið.

Ófarir Charlton halda áfram og í dag tapaði liðið fyrir nýliðum Sheffield United á útivelli, 2-1, eftir að hafa komist yfir í leiknum. Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn fyrir Charlton sem er í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins 10 stig.

Heiðar Helguson lék fyrstu 69 mínúturnar fyrir Fulham sem tapaði fyrir Blackburn á útivelli, 2-0. Þá skildu Portsmouth og Aston Villa jöfn, 2-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×