Enski boltinn

Richards segist ekki á förum frá Man. City

Micah Richards hefur verið frábær fyrir Manchester City í ár.
Micah Richards hefur verið frábær fyrir Manchester City í ár. MYND/Getty Images

Micah Richards, hinn 18 ára gamli bakvörður Manchester City og heitasti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir, er afar rólegur þrátt fyrir að vera orðaður við öll stærstu félög Englands um þessar mundir.

Chelsea og Liverpool eru sögð fylgjast vel með gangi mála hjá Richards og þykja líkleg að gera tilboð í leikmanninn um leið og hann gefur til kynna að hann vilji fara til stærra liðs. En ef marka má orð Richards verður það ekki í bráð.

"Ég er að spila með góðu liði í hverri viku og er kominn í enska landsliðið. Það gerist ekki mikið betra en það," segir Richards, sem fyrir aðeins ári síðan var að spila með varaliði Man. City.

Stuart Pearce, stjóri Man. City, segir að það borgi sig ekki alltaf að fara til stóru liðana þegar færi gefst til og bendir á Shaun-Wright Phillips hjá Chelsea máli sínu til stuðnings. Og Richards virðist ekki ætla að fara að fordæmi fyrrum félaga síns hjá  Man. City. "Það eina sem ég hugsa um núna er að standa mig vel hjá liði mínu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×