Enski boltinn

Pardew vill unga leikmenn til West Ham

Javier Mascherano og Carlos Tevez verða líklega áfram hjá West Ham.
Javier Mascherano og Carlos Tevez verða líklega áfram hjá West Ham. MYND/Getty Images

Alan Pardew, knattspyrnustjóri West Ham, segir að han horfi helst til góðra ungra leikmanna þegar kemur að því að hann styrki lið sitt. Líklegt er að það verði strax í janúar þegar leikmannaglugginn opnast að nýju, enda Eggert Magnússon búinn að lofa honum allt að milljarði króna.

Shaun-Wright Phillips hjá Chelsea og Curtis Davies hjá WBA hafa verið orðaðir við West Ham að undanförnu en Pardew vill ekkert segja um hvort einhver sannleikur sé í þeim sögusögnum. "Það sem ég get sagt er að West Ham er félag sem hefur alltaf lagt mikið upp úr starfi með unga leikmenn. Það er það sem við viljum - fá unga leikmenn með mikla hæfileika og möguleika. Það er síðan okkar að rækta þessa hæfileika og búa til enn betri knattspyrnumenn," sagði Pardew.

Stjórinn bætti því einnig við að Argentínumennirnir Carlos Tevez og Javier Mascherano yrðu líklega áfram hjá West Ham út leiktíðina. Pardew hitti Kia Joorabchian, "eiganda" leikmannanna á fundi fyrir helgi sem var að sögn Pardews afar góður. "Hann lýsti yfir vilja sínum að gefa þeim áfram tækifæri til að sanna sig hér á Englandi. Ég hef fulla trú á þeim, hugarfar þeirra er fyrsta flokks og það eina sem vantar upp á er að þeir bæti sig í enskri tungu," sagði Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×