Enski boltinn

Fyrsti sigur Fulham á Arsenal í 40 ár

Michael Ballack fagnar sigurmarki sínu gegn Bolton
Michael Ballack fagnar sigurmarki sínu gegn Bolton NordicPhotos/GettyImages

Fulham lagði Arsenal 2-1 á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og var þetta fyrsti sigur Fulham á grönnum sínum í fjóra áratugi. Fulham komst í 2-0 eftir rúmlega stundarfjórðung segja má að Arsenal hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir það. Efstu liðin, Man Utd og Chelsea, unnu bæði sigur í sínum leikjum.

Þeir Brian McBride og Tomas Radzinski komu Fulham í 2-0 eftir 19 mínútur gegn Arsenal og þó Robin van Persie hafi náð að minnka muninn fyrir Arsenal á 36. mínútu. Möguleikar Arsenal á að jafna leikinn minnkuðu verulega í síðari hálfleik þegar Philippe Senderos var vikið af velli með sitt annað gula spjald, en bæði lið áttu reyndar stangarskot undir lokin. Jens Lehmann skellti sér í sóknina hjá Arsenal undir lokin, en allt kom fyrir ekki. Heiðar Helguson kom inn sem varamaður í liði Fulham á 76. mínútu.

Chelsea vann góðan 1-0 sigur á Bolton á útivelli með marki frá Michael Ballack og Manchester United skellti Everton 3-0 með mörkum frá Patrice Evra, John O´Shea og Cristiano Ronaldo, en bræðurnir Gary og Phil Neville voru fyrirliðar liðanna í kvöld og er það í fyrsta skipti sem þessi skemmtilega uppákoma á sér stað í efstu deild á Englandi.



Manchester City sigraði Aston Villa nokkuð óvænt á útivelli 3-1 og þá skildu Liverpool og Portsmouth jöfn 0-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×