Enski boltinn

Bolton heimtar virðingu

Bolton hefur verið á ágætum skriði í haust
Bolton hefur verið á ágætum skriði í haust NordicPhotos/GettyImages

Sammy Lee, aðstoðarstjóri Bolton í ensku úvalsdeildinni, segir að félagið hafi mikinn hug á að reyna að ná einu af fjórum efstu sætunum í deildinni í vetur svo það fái loks þá virðingu sem það á skilið. Bolton hefur verið á meðal átta efstu liða í deildinni undanfarin ár og lagði Arsenal 3-1 um síðustu helgi. Liðsins bíður erfiður leikur gegn Chelsea í kvöld.

"Það yrði þessu félagi mikil lyftistöng að ná einu af efstu sætunum í deildinni og það yrði ef til vill til þess að menn sýndu því loks þá virðingu sem það á skilið. Menn hafa lengi gagnrýnt leikstíl okkar, en við erum með dugnaðarforka í liði okkar sem margir öfunda okkur af. Ég er svosem ekkert að væla yfir því, en ég held að ef við náum á topp fjögur í vor, muni það þagga aðeins niður í þessum röddum. Það er samt mikið eftir af tímabilinu ennþá og við vorum lengi á topp fjögur á síðasta tímabili, en það tryggir enginn stöðu sína í deildinni í nóvember," sagði Lee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×