Innlent

Líf manns í tvísýnu eftir hjartastopp í lögreglubíl

Tvísýnt er með ungan mann sem lenti í hjartastöðvun í lögreglubíl um helgina. Ætla má að máli hans verði vísað til ríkissaksóknara.

Maðurinn er um þrítugt en hann var gestur á Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík á laugardagskvöldið. Samkvæmt lögreglunni var maðurinn með ólæti, truflaði hótelgesti og kastaði til húsgögnum. Lögreglan var því kölluð á vettvang og lenti í átökum við manninn. Hann var síðan fluttur á lögreglustöðina en þegar þangað kom var hann í hjartastoppi. Sjúkralið kom á staðinn og lífgaði manninn við og var hann fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans. Að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns er verið að afla gagna um málið en hann telur líklegt að því verði vísað til ríkissaksóknara. Maðurinn liggur enn á gjörgæsludeild Landspítalans en vakthafandi læknir vill ekki tjá sig um ástand hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×