Innlent

Halda óbreyttum réttindum í tvö ár

MYND/GVA

Starfsmenn Ríkisútvarpsins munu halda lífeyrisréttindum sínum og öðrum réttindum opinberra starfsmanna í tvö ár eftir að stofnunin verður gerð að hlutafélagi, samkvæmt hugmyndum sem ræddar eru í menntamálanefnd Alþingis. Össur Skarphéðinsson, varamaður í nefndinni, segir að eftir það verði réttindi starfsmannanna nánast öll komin undir útvarpsstjóra.

Enn er tekist á um frumvarpið um Ríkisútvarpið. Páll Magnússon, útvarpsstjóri kom fyrir menntamálanefnd í morgun, en meirihluti nefndarinnar vill nú ræða að setja takmarkanir á stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður nefndarinnar, segir málið enn í vinnslu og verða rætt á vettvangi nefndarinnar á morgun og á miðvikudag. Sigurður Kári segir jafnframt að engar ákvarðarnir hafi verið teknar varðandi stöðu RÚV á auglýsingamarkaði.

Sigurður Kári kannast ekki við að það sé ágreiningur milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um málið. Aðspurður hvort það séu framsóknarmenn sem setji fram körfur um að RÚV verði settar hömlur á auglýsingamarkaði segir Sigurður Kári svo ekki vera heldur sé það innan beggja flokka. Flokkarnir tveir hafi hingað til verið samstíga inni í nefndinni.

Össur Skarphéðinsson, varamaður í menntamálaefnd, segir það alveg skoðunar virði að kanna það hvort setja eigi hömlur á RÚV á auglýsingamarkaði. Hann vilji hins vegar sjá tillögur þar að lútandi en þær hafi ekki litið dagsins ljós. Svo virðist sem þetta sé sett fram í einhverri taugaveiklun á allra síðustu metrunum.

Eitt af stóru málunum sem þarf að afgreiða í frumvarpinu um RÚV eru málefni starfsmanna og lífeyrisréttindi þeirra. Össur segir alveg ljóst eftir yfirferð málsins með útvarpsstjóra að réttindamál starfsmanna séu í uppnámi. Það sé verið að bjóða óbreytt réttindi næstu tvö ár en eftir það sýnist honum sem lífeyrisréttindi séu undir hæl útvarpsstjóra eða þeirra sem stjórna útvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×