Körfubolti

Dallas með níunda sigurinn í röð

Dallas er komið á mikla siglingu eftir ömurlega byrjun
Dallas er komið á mikla siglingu eftir ömurlega byrjun AFP

Dallas vann í nótt sinn níunda leik í röð í NBA deildinni þegar liðið skellti New Orleans á heimavelli sínum, en Utah Jazz tapaði loks eftir átta leikja sigurgöngu þegar liðið tapaði fyrir Golden State á útivelli.

Dallas náði strax góðri forystu gegn New Orleans sem gestirnir náðu aldrei að vinna upp og vann að lokum 85-73. Dirk Nowitzki skoraði 28 stig fyrir Dallas, en Jannero Pargo skoraði 19 stig fyrir New Orleans. Þetta var níundi sigurleikur Dallas í röð eftir tap í fyrstu fjórum leikjunum á tímabilinu.

Utah þurfti að sætta sig við tap gegn Golden State 91-78. Matt Barnes skoraði 24 stig fyrir Golden State en Matt Harpring skoraði 15 stig fyrir Utah, sem hefur unnið 12 leiki en tapað 2.

Orlando vann auðveldan sigur á Atlanta 98-79. Carlos Arroyo skoraði 15 stig fyrir Orlando en þeir Joe Johnson og Shelden Williams skoruðu 16 fyrir Atlanta.

Detroit lagði Washington 115-111 á útivelli og vann þar með sinn 6. leik í röð. Chauncey Billups skoraði 29 stig fyrir Detroit en Gilbert Arenas 28 fyrir Washington.

Miami lagði Charlotte á útivelli 102-93. Dwyane Wade skoraði 35 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir Miami en Adam Morrison skoraði 27 stig fyrir Charlotte.

Cleveland lagði Philadelphia 108-95. Allen Iverson skoraði 31 stig fyrir Philadelphia en LeBron James skoraði 25 stig fyrir Cleveland.

Chicago náði loks að vinna leik þegar liði skellti New York 106-95 á útivelli. Jamal Crawford skoraði 26 stig fyrir New York en Luol Deng 24 fyrir Chicago.

Houston lagði Memphis 85-76. Yao Ming skoraði 28 stig fyrir Houston en Hakim Warrick skoraði 12 stig fyrir Memphis.

Boston lagði Milwaukee 111-98 á útivelli. Paul Pierce skoraði 34 stig, hirti 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir Boston, en Michael Redd skoraði 24 stig fyrir Milwaukee.

Loks vann Sacramento auðveldan sigur á Portland á heimavelli 105-85. Kevin Martin skoraði 27 stig fyrir Sacramento en Zach Randolph var með 24 stig hjá Portland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×