Innlent

Verður var við andstöðu Framsóknarmanna við RÚV frumvarp

Björn Ingi Hrafnsson formaður borgarráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra segist verða var við mikla andstöðu innan Framsóknarflokksins við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Hann sagði í þættinum Pólitíkinni á Stöð tvö í dag að hann gæti ekki talað um það sem fram færi á þingflokksfundum en að hann hefði fáa Framsóknarmenn hitt sem vildu að RÚV yrði breytt í hlutafélag.

Björn Ingi er nýkominn af þingi sem varamaður undanfarna daga.

Björn benti á að frumvarpið um RÚV væri í þinglegri meðferð núna og sagðist eiga von á því að það yrði keyrt áfram, meðal annars vegna þess að verið væri að leggja það fram í þriðja sinn.

"Ég held að það séu ýmsir þingmenn innan Sjálfstæðisflokksins sem hafi ekki mikla sannfæringu fyrir þessu," sagði Björn.

Í þættinum, sem Svavar Halldórsson fréttamaður stýrði, lýsti Össur Skarphéðinsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar sig einnig andvígan frumvarpinu, enda kynni það að vera fyrsta skrefið í áttina að því að selja hluta af RÚV.

"Það er verið að gera Ríkisútvarpið harðpólitískara en áður," sagði hann.

Björn Ingi benti á að Framsóknarflokkurinn hefði áður ályktað um að gera ætti RÚV að sjálfseignarstofnun, en að nú væri gerð tillaga um að það yrði gert að ríkishlutafélagi, eða ohf.

"Maður veltir fyrir sér, til hvers?" sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×