Innlent

Landsvirkjun tvöfaldar styrk sinn við Ómar

MYND/GVA

Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að tvöfalda stuðning sinn við Ómar Ragnarsson fréttamann úr fjórum milljónum í átta vegna kvikmyndar sem hann vinnur að um fyllingu Hálslóns við Kárahnjúka. Ákvörðunin var tekin á fundi stjórnarinnar í morgun.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að Ómar og samstarfsmenn hans fái einnig fá húsaskjól og fæði í búðum Landsvirkjunar við Kárahnjúka á meðan á kvikmyndatökum stendur. Á móti fær Landsvirkjun afnot af kvikmyndaefni Ómars.

Segir jafnframt í tilkynningu Landsvirkunar að fyrirtækið virði ólík sjónarmið gagnvart Kárahnjúkavirkjun og telji jákvætt að styðja Ómar í viðleitni sinni við að sýna sem best myndun Hálslóns enda hafi samstarf Ómars og Landsvirkjunar ætíð verið gott.

Fram kom í þættinum Kompás nýlega að Ómar skuldaði tuttugu milljónir króna vegna verkefnisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×