Innlent

Vilja 900 þúsund króna frítekjumark hjá elli- og örorkulífeyrisþegum

MYND/GVA

Stjórnarandstaðan leggur fram sameiginlegar tillögur við breytingar á fjárlögum við aðra umræðu um þau sem varðar lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. Gert er ráð fyrir að greiðslur til þeirra hækki um samtals sjö milljarða króna samkvæmt tillögunum en þær voru kynntar á sameiginlegum fundi stjórnarandstöðunnar í morgun.

Tillögurnar gera í fyrsta lagi ráð fyrir nýju frítekjumarki fyrir bæði elli- og örorkulífeyrisþega sem nemur 900 þúsund krónum en samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar á markið að vera 300 þúsund krónur og aðeins að gilda fyrir ellilífeyrisþega. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að tekjutrygging hækki upp í 85 þúsund krónur hjá ellilífeyrisþegum en 86 þúsund hjá öryrkjum og í þriðja lagi að afnumin verði með öllu tengsl lífeyrisgreiðslna við tekjur maka.

Þá vill stjórnarandstaðan í fjórða lagi að vasapeningar þeirra sem búi á stofnunum hækki um helming og frítekjumark þeirra hækki úr 50 þúsund krónum í 75 þúsund krónur. Enn fremur að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar þeir fari á ellilífeyri.

Í sjötta og síðasta lagi vill stjórnarandstaðan að skerðingarhlutfall verði minnkað þannig að skattskyldar tekjur umfram 900 þúsund króna frítekjumarkið skerði tekjutryggingu aðeins um 35 prósent í stað 45 prósenta.

Það voru Katrín Júlíudóttir, Samfylkingunni, sem er flutningsmaður tillagnanna, og þingflokksformennirnir Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson og Magnús Þór Hafsteinsson sem kynntu tillögunar. Fram kom í máli þeirra að milljarðarnir sjö rúmist innan fjárlagarammans en tillagan er eitt skref í samvinnu stjórnarandstöðuflokkanna sem kynnt var fyrr í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×