Enski boltinn

Einvígi Man. Utd. og Chelsea heldur áfram

Wayne Rooney reyndist betri en enginn í dag.
Wayne Rooney reyndist betri en enginn í dag. Getty Images

Manchester United heldur toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 útisigur á nýliðum Sheffield United í dag þar sem Wayne Rooney skoraði bæði mörk Rauðu djöflanna. Meistarar Chelsea fylgja þeim rauðklæddu eins og skugginn en liðið lagði West Ham á Stamford Bridge, 1-0.

Wayne Rooney sannaði endanlega að hann er búinn að finna sitt gamla form með því að skora tvö glæsilega mörk gegn Sheff. Utd. í dag eftir að Keith Gillespie hafði óvænt komið heimamönnum yfir um miðjan fyrri hálfleik. Rooney skoraði sigurmarkið stundarfjórðungi fyrir leikslok en sigur Man. Utd. var afar verðskuldaður.

Mark frá varnarmanninum Geremi á 22. mínútu var það sem skildi að Chelsea og West Ham í leik liðanna á Brúnni í dag. Leikmenn Chelsea voru ekki upp á sitt besta í dag en gerðu það sem þeir þurftu til að innbyrða stigin þrjú.

Manchester United er sem fyrr segir í efsta sæti deildarinnar með 34 stig en Chelsea er í 2. sæti með 31 stig. Arsenal er í 3. sæti með 22 stig en liðið náði aðeins jafntefli gegn Newcastle.

Mikael Arteta tryggði Everton mikilvægan sigur gegn Bolton með því að skora eina markið í leik liðanna í dag. Portsmouth bar sigurorð af Watford, 2-1, og þá vann Reading 2-0 sigur á Charlton á heimavelli sínum. Ívar Ingimarsson lék allan leikinn fyrir Reading en Brynjar Björn Gunnarsson kom inn á á 88. mínútu. Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn fyrir Charlton og fékk að líta gula spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×