Innlent

Vill leggja niður mannanafnanefnd

MYND/GVA

Björn Ingi Hrafnsson varaþingmaður hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að mannanafnanefnd verði lögð niður og að lögboðið hlutverk nefndarinnar verði flutt til dómsmálaráðherra sem skera úr álitamálum sem upp kunni að koma í tengslum við nafngiftir og nafnritun.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að margir hafi litið svo á að nafn manna varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings. Bent er á að mannanafnanefnd og úrskurðir hennar hafi sætt mikilli gagnrýni og þess séu jafnvel dæmi að nöfnum hafi verið hafnað enda þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Hafi þetta orðið tilefni mikilla sárinda og deilna.

Í greinargerðinni segir enn fremur að með því að leggja mannanafnanefnd niður hætti hið opinbera að gefa út samræmda skrá um þau nöfn sem unnt er að gefa einstaklingum hér á landi en áfram verði í gildi meginreglur um fullt nafn, eiginnöfn, millinöfn, kenninöfn og nafngjöf, svo og reglur um nafnrétt manna af erlendum uppruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×