Enski boltinn

Nýjar reglur greiða leið ungra þjálfara

Gareth Southgate á enn langt í land þó búið sé að lina reglur um réttindi til þjálfunar í úrvalsdeildinni
Gareth Southgate á enn langt í land þó búið sé að lina reglur um réttindi til þjálfunar í úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa samþykkt nýja reglugerð sem auðveldar yngri mönnum að taka við stöðu knattspyrnustjóra hjá félögum í deildinni, en reglur þessu tengdar hafa verið mikið í umræðunni vegna stjóra Middlesbrough og Newcastle.

Glenn Roeder, stjóri Newcastle og Gareth Southgate hjá Middlesbrough hafa báðir starfað á sérstökum undanþágum, en nú hafa forráðamenn deildarinnar breytt reglunum á þann hátt að menn geta nú tekið við liði í úrvalsdeildinni ef þeir eru skráðir á þjálfunarnámskeið hjá UEFA - en áður þurftu þeir að vera búnir að klára námskeiðið.

Roeder var veitt sérstök undanþága af því hann veiktist alvarlega þegar hann sótti námskeiðið á sínum tíma en hann er nú í óðaönn að ná fullum réttindum. Staða Southgate er ekki jafn góð, en hann tók við liði Boro aðeins 36 ára gamall og var í raun enn leikmaður liðsins þegar hann tók óvænt við af Steve McClaren þegar sá tók við enska landsliðinu.

Forráðamenn Boro vonast til þess að Southgate verði veitt undanþága af því hann hafði ekki tíma til að sækja námskeiðið af þeirri einföldu ástæðu að hann var enn að spila á fullu - sem og vegna þess hve litla mótstöðu forráðamenn félagsins veittu enska knattspyrnusambandinu þegar það leitaði eftir því að fá að ræða við Steve McClaren á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×