Enski boltinn

Verðum að taka leikinn við Southend alvarlega

Sir Alex Ferguson
Sir Alex Ferguson NordicPhotos/GettyImages

Alex Ferguson hefur varað leikmenn sína við því að ætla að vanmeta lið Southend þegar liðin mætast í deildarbikarnum í kvöld í leik sem sýndur verður beint á Sýn. Hann segir leikinn við Crewe í síðustu umferð hafa undirstrikað að menn verði að vera fullkomlega einbeittir þó þeir spili gegn lægra skrifuðum andstæðingum.

United mun með sigri komast í fjórðungsúrslit keppninnar fjórða árið í röð, en Ferguson hefur minnt sína menn á það að þeir náðu með naumindum að slá lið Crewe úr keppni á dögunum. United hefur byrjað leiktíðina mjög vel í úrvalsdeildinni, á meðan Southend er í fallbaráttu í næst efstu deild.

"Ungu leikmennirnir sem mættu Crewe fengu harkalega áminningu um það að allt getur gerst í bikarnum og því verða menn að berjast eins og ljón, því annars getur farið illa. Manchester United er stórt félag og þó allir hafi haft gaman af því að vinna deildarbikarinn í fyrra, hafa menn klárlega sett stefnuna á eitthvað meira í ár," sagði Ferguson þegar hann var spurður út í mikilvægi deildarbikarsins í sínum augum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×