Erlent

Spennan magnast fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum

Spennan fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum heldur áfram að magnast, degi áður en Bandaríkjamenn ganga til kosninga. Ný skoðanakönnun sem dagblaðið USA Today og Gallup hafa gert sýnir að forskot demókrata í kosningunum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur minnkað nokkuð á síðustu tveimur vikum og þá er mjög mjótt á munum í kosningum til öldungadeildarinnar.

Þar þurfa demókratar að vinna sex sæti af repúblikönum til þess að ná meirihluta í deildinni. Samkvæmt skoðanakönnun USA Today hafa þeir forystu í fimm ríkjum, sem repúblikanar ráða nú, en vantar enn eitt þingsæti til þess að ná meirihlutanum.

Könnun USA Today og Gallup var gerð frá fimmtudegi fram til gærdagsins og hún sýnir að demókratar njóta stuðnings 51 prósents landsmanna í kosningum í fulltrúadeildina en repúblikanar njóta stuðnings 44 prósenta. Hefur forskot demókrata minnkað um sex prósentustig á tveimur vikum en þeir þurfa að ná fimmtán sætum af repúblikönum til þess að hljóta meirihluta í deildinni. Stjórnmálaskýrendur búast flestir við að það takist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×