Innlent

Ríkið greiðir 30,25 milljarða fyrir Landsvirkjunarhlut

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri handsala samninginn í hádeginu.
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri handsala samninginn í hádeginu. MYND/Pjetur

Fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyrar undirrituðu nú í hádeginu saming um um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun í Þjóðmenningarhúsinu. Þar með verður fyrirtækið eingöngu í eigu ríkisins.

Ríkið greiðir 30 milljarða og 250 milljónir króna fyrir hlutinn. Borgin fær um 27 milljarða fyrir sinn hlut og Akureyrarbær um 3,3 milljarða sem greiddir verða með reiðufé.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri benti á að viðræður hefðu staðið með hléum í tvö á milli aðila en að R-listanum hefði aldrei verið alvara með að selja hlut borgarinnar þar sem Vinstri - grænir hafi lagst gegn því. Þá sagði hann verðmat fyrirtækisins hafa hækkað frá því að viðræðum var slitið milli ríkis og borgar fyrr á árinu.

Um ástæður sölunnar sagði Vilhjálmur að Íslendingar byggju í gjörbreyttu raforkuumhverfi og það gengi ekki að hans mati að Reykjavíkurborg ætti bæði 95 prósenta hlut í Orkuveitu Reykjavíkur og 45 prósenta hlut í Landsvirkjun, fyrirtækjum í samkeppni. Jafnframt lýsti hann því yfir að Orkuveitan yrði ekki einkavædd í hans borgarstjóratíð.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var inntur eftir því hvort ætlunin væri að einkavæða Landsvirkjun í kjölfar samninganna en hann sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um það. Í svipaðan streng tók Árni Mathiesen fjármálaráðherra og sagði ekkert liggja fyrir um einkavæðingu fyrirtækisins.

Borgarstjórinn í Reykjavík og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, voru báðir inntir eftir því hvað gert yrði við söluandvirðið. Vilhjálmur sagði að um 24 milljarðar færu í lífeyrisskuldbindingar borgarinnar en þrír milljarðar í að greiða niður uppsafnaðan halla borgarsjóðs. Kristján sagði að hlutur Akureyrar færi í lífeyrisskuldbindingar bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×