Erlent

Minnsta fylgi Verkmamanna- flokksins í nærri 20 ár

MYND/AP

Fylgi breska Verkamannaflokksins hefur ekki mælst minna í nærri tuttugu ár samkvæmt nýrri könnun sem breska blaðið Guardian birtir í dag. Þar reynist flokkurinn aðeins hafa stuðning um 29 prósenta kjósenda sem er jafnmikið og flokkurinn mældist með í maí árið 1987 skömmu áður en Íhaldsflokkurinn sigraði í þriðju þingkosningunum í röð.

Verkamannaflokkurinn hélt ársþing sitt nýlega og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þar að hann hygðist hætta á næsta ári eftir mikinn óróa innan flokksins. Það hefur hins vegar lítil áhrif haft því flokkurinn tapar þriggja prósenta fylgi milli mánaða.

Hins vegar mælist Íhaldsflokkurinn með um 39 prósenta fylgi og Frjálslyndir demókratar með 22 prósent. Er talið að gagnrýni Davids Camerons, leiðtoga Íhaldsflokksins, á niðurskurð í heilbrigðsþjónustu og hugmyndir flokksins um skattalækkanir hafi aflað honum aukins fylgis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×