Erlent

Rússneskir embættismenn neita að skrá stjórnarandstöðuflokk

Rússneskir embættismenn sögðu í dag að þeir hefðu hafnað umsókn til þess að skrá stjórnarandstöðuflokk sem fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, Mikhail Kasyanov, er í forsvari fyrir. Kasyanov sagði að höfnunin, sem kemur í veg fyrir að flokkurinn geti starfað eðlilega, sé af pólitískum ástæðum. Embættismenn í Rússlandi segja hinsvegar að höfnunin sé einfaldlega komin til vegna þess að skilyrðum skráningarskrifstofunnar hafi ekki verið fullnægt. Þeir bættu einnig við að þetta þýddi ekki að flokkurinn væri bannaður - Kasyanov gæti komið aftur og sótt um skráningu hvenær sem er - jafnvel eitt hundrað sinnum.

Kasyanov var forsætisráðherra Rússlands frá árinu 2000 þangað til Pútín rak hann í febrúar 2004. Eftir það hefur hann verið virkur í stjórnarandstöðu og heitið því að vinna bug á þeirri spillingu og þeim andlýðræðislegu öflum sem eru við völd í Moskvu. Almennur stuðningur við hann er þó enn talinn undir tíu prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×