Erlent

Heimferð flóttamanna frestað

MYND/AP

Flóttamannahjálp SÞ hefur ákveðið að fresta því að flytja fóttamenn aftur til heimahaga sinna í Suður-Súdan vegna átaka sem hafa blossað upp á svæðinu. Flytja átti fólk til Súdan frá flóttamannabúðum í Norður-Úganda en hætt var við það þar sem fréttir bárust af því að um 40 almennir borgarar hefðu fallið í átökum við óþekkta byssumenn.

Fram kemur á fréttavef BBC að um 14 þúsund flóttamenn hafi snúið aftur til Suður-Súdan það sem af er þessu ári, eða síðan endir var bundinn á 19 ára átök í landinu. Um 350 þúsund Súdanar eru enn búsettir utan heimalandsins og um 4 milljónir á vergangi í heimalandinu.

Í yfirlýsingu frá Flóttamannahjáls SÞ segir að náið eftirlit verði haft með þróun mála og á grunni þeirra upplýsinga metið hvenær rétt sé að senda Súdana heim til sín.

Fréttaskýrendur segja líklegt að átökin í Suður-Súdan tengist friðarviðræðum sem miða að því að binda enda á stríðsátök í Norður-Úganda. Viðræðurnar fara fram í Juba, helstu borginni í suðurhluta Súdans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×