Erlent

Þjóðaratkvæðagreiðsla um fóstureyðingar í Portúgal

Portúgalar ganga að kjörborðinu í janúar á næsta ári og greiða atkvæði um það hvort leyfa eigi fóstureyðingar í landinu. Fóstureyðingar eru aðeins leyfðar í Portúgal nú ef konu hefur verið nauðgað og hún verður síðan þunguð, líf hennar er talið í hættu, fósturskaði orðið eða hætta á alvarlegri fötlun.

Fram kemur á fréttavef BBC að Sósíalista, sem eru í stjórn, leggi til að konum verið leyft að eyða fóstir fram á 10 viku. Helstu flokkarnir í stjórnarandstöðu, Sósíaldemókratar og Vinstrabandalagið, studdu tillögu Sósíalista um þjóðaratkvæðagreiðslu. Kommúnistar greiddu atkvæði gegn henni en Kristilegir demókratar sátu hjá.

Jose Socrates, forsætisráðherra, segist vilja koma í veg fyrir að konur leiti eftir ólöglegum fórstureyðingum hjá fúskurum í bakherbergjum. Það beri þess merki af landið sé aftarlega á merinni og jafnvel hægt að líta á það sem vanþróað.

Stuðningsmenn forsætisráðherrans segja auðugar portúgalskar konur hafa efni á því að fara í fóstureyðingu í öðrum löndum en mörg þúsund fátækar konur þurfi að leita lækningar eftir að hafa gengist undir ólöglega fóstureyðingu.

Íbúar í Portúgal eru flestir Rómversk-kaþólskir. Andstæðingar þess að fóstureyðingar verði leyfðar segja að verja þurfi ófætt barn jafn kröfuglega og þau sem komin séu í heiminn.

Síðast var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið árið 1998. Tillaga um að leyfa fóstureyðingar var þá felld en fjölmargir kjósendur greiddu ekki atkvæði og var því niðurstaðan ógild.

Löggjöf gegn fóstureyðingum í Portúgal er einhver sú harðasta í Evrópu og svipuð lögum á Írlandi. Fóstureyðingar eru hins vegar bannaðar með öllu á Möltu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×