Erlent

Grímuklæddir ræningjar á McDonalds

MYND/AP

Lögreglan í franska bænum Saint-Denis, norður af höfuðborginni París, umkringdi í dag McDonalds skyndibitastað þar í bæ en fregnir höfðu borist af því að ræningjar hefðu tekið þar fólk í gíslingu. Lögreglumaður á ferð framhjá sá þrjá grímuklædda menn ganga inn á skyndibitastaðinn í morgun og var varla hægt að áætla annað en að þeir ætluðu að fremja þar rán. Þrír starfsmenn skyndibitastaðarinn flúðu þegar.

Lögregla girti svæðið af en sögur gengu þá af því að mennirnir hefðu tekið viðskiptavini í gíslingu. Lögreglumenn voru við öllu búnir þar sem til óeirða kom í þorpinu í fyrra. Óeirðalögreglumenn skýldu sér bak við kyrrstæða bíla og földu sig bak við runna meðan þeir biðu átekta.

Að lokum réðust þeir til inngöngu og kom þá í ljós að skyndibitastaðurinn var mannlaus. Mennirnir höfðu þá flúið af vettvangi án þess að lögregla yrði þess vör. Ekki fylgir sögunni hvað þeir hafði fengið upp úr krafsinu.

Lögregla hefur aukið eftirlit í úthverfum Parísar og nærliggjandi þorpum síðustu vikur eftir að til átaka kom milli lögreglu og ungmenna. Óttast var að til óeirða kæmi nú líkt og í fyrr en ekki hefur komið til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×