Erlent

Skjóta Tíbeta á flótta

Rúmenskir kvikmyndatökumenn náðu því á mynd þegar kínverskir landamæraverðir skutu á hóp Tíbeta sem var fótgangandi á leið yfir til Nepals. Tveir létu lífið. Kínversk stjórnvöld viðurkenna að átök hafi átt sér stað, en halda því fram að fólkið hafi ráðist á landamæraverðina.

Kvikmyndatökumennirnir voru í för með alþjóðlegum fjallgönguhópi í Nanga La skarði milli Nepals og Kína. Þeir sáu nokkuð langa röð af fólki á gangi í snjónum, og gerðu ráð fyrir að þarna væru Tíbetar á ferð, á langri leið til Indlands að ná fundum Dalai Lama. Þá heyrðist skothríð og eftir lá einn látinn og tveir særðir. Annar ku hafa látist síðar. Síðan mátti sjá landamæraverðina bogra yfir líkinu, án þess að hreyfa það úr stað.

Fjallgönguhópurinn hafði tjaldað yfir fötu til að nota sem salerni og þar leitaði einn Tíbetinn skjóls. Hann sagði það rétt að hópurinn hefði verið á leið yfir til Indlands að hitta Dalai Lama. Kvikmyndatökumaðurinn rúmenski gaf honum föt og sokkapar og hann hélt för sinni yfir skarðið áfram þegar dimmt var orðið.

Fjölmargir Tíbetar reyna að komast yfir landamærin á ári hverju, en andlegur leiðtogi þeirra, Dalai Lama, hefur verið í útlegð á Indlandi síðan árið 1959.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×