Erlent

Refsivert að tala um annað en þjóðarmorð

Neðri deild franska þingsins samþykkti í dag frumvarp um að refsivert verði að halda fram að Tyrkir hafi ekki framið þjóðarmorð á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni. Tyrkir eru fjúkandi reiðir og hyggjast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að efri deild og forseti geri frumvarpið að lögum.

Talið er að um ein og hálf milljón Armena hafi týnt lífi þegar Ottómanveldið var að liðast í sundur í fyrri heimsstyrjöldinni. Tyrkir hafa ávallt neitað því að þjóðarmorð hafi átt sér stað, en fjölmargir Armenar kunni að hafa látist í borgarastríði þessa tíma. Ef frumvarpið verður að lögum, mun það varða allt að eins árs fangelsisvist og fjögurra milljón króna sekt, að halda því fram að ekki hafi verið framið þjóðarmorð á Armenum.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í neðri deildinni var afgerandi 106 atkvæði með, 19 á móti. Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði á móti sögðu það ekki hlutverk franska þingsins að skrifa mannkynssöguna, aðrir voru á því að hér væri um að ræða staðreynd og rétt eins og það sé refsivert að halda því fram að helförin sé tilbúningur, sé þjóðarmorðið á Armenum staðreynd sem ekki megi horfa framhjá.

Tyrkir eru ævareiðir og segjast munu beita öllum ráðum til þess að koma í veg fyrir að efri deild þingsins fari sömu leið og sú neðri og að Chiraq Frakklandsforseti undirriti lögin ef þau ná það langt.

Þúsundir Armena í Beirút í Líbanon mótmæltu veru tyrkneskra friðargæsluliða í landinu í dag, á þeim forsendum að það væri móðgun við sameiginlegan arf Armena. Þeir fögnuðu hins vegar ákvörðun franska þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×