Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir hrottafengið ofbeldi og nauðganir

Karlmaður á sextugsaldri, Jón Pétursson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa ítrekað nauðgað fyrrverandi unnustu sinni og svipt hana frelsi og fyrir að hafa ráðist á aðra fyrrverandi sambýliskonu sína með ofbeldi í þrígang.

Síðarnefndu atvikin áttu sér stað í fyrrasumar. Í fyrstu árásinni kýldi maðurinn konuna ítrekað í skrokkinn en í annarri árásinni dró hann hana inn í herbergi og hélt kodda yfir andliti hennar þannig að hún átti erfitt með andardrátt. Í þeirri þriðju ruddist hann inn til konunnar og sló hana mörg hnefahögg í andlit og líkama.

Í febrúar á þessu ári hélt hann svo hinni konunni, sem var unnusta hans, fanginni í íbúð frá klukkan fimm að morgni fram yfir hádegi, en á þeim tíma beitti hann hana ofbeldi og og þröngvaði henni þrívegis til samræðis við sig.

Maðurinn neitaði öllum sakargiftum fyrir dómi en dómari mat konurnar tvær trúverðug vitni. Segir í dómnum að brot mannsins gagnvart konunum séu sérlega hrottafengin og að hann hafi farið fram gegn þeim í krafti líkamsburða sinna. Hann hafi notað aðstöðu sína gagnvart konunum og það að þær voru honum háðar, en báðar eru af erlendum uppruna.

Var hann dæmdur í fimm ára fangelsi og til að greiða þeirri sem hann beitti ofbeldi í þrígang 800 þúsund krónur í miskabætur og þeirri sem hann nauðgaði ítrekað 1,2 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×