Erlent

Geislavirkir sniglar á Spáni þar sem bandarísk sprengjuflugvél fórst

B-52 sprengjuflugvél
B-52 sprengjuflugvél
Geislavirkni hefur fundist í sniglum í grennd við þorpið Palomares, á Spáni, þar sem þrjár kjarnorkusprengjur lentu, þegar bandarísk sprengjuflugvél fórst, fyrir fjörutíu árum.

Slysið varð þegar B-52 sprengjuflugvél hrapaði eftir árekstur við eldsneytisvél, árið 1966. Ellefu bandarískir flugliðar fórust í slysinu.

Sprengjurnar brotnuðu og geislavirkt plútóníum dreifðist um stórt svæði. Í umfangsmikilli hreinsun voru mörg hundruð tonn af jarðvegi fjarlægð og flutt til Bandaríkjanna. Náið heilbrigðiseftirlit hefur verið með íbúum í Palomares síðan slysið varð, og engin hætta talin á yfirborðs-geislun.

Engu að síður hafa börn verið vöruð við því að vinna á ökrunum við slysstaðinn, og ekki borða snigla þaðan, en sniglarnir eru taldir hnossgæti á Spáni, sem og víðar.

Mönnum er að vonum brugðið við geislavirku sniglana og rannsókn hefur verið ákveðin til þess að kanna hvort áður óþekkt geislun leynist neðanjarðar. Ef svo reynist vera, hefjast hreinsunaraðgerðir á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×