Erlent

Ekki ber á geislavirkum leka

Norður-Kóreumenn gerðu tilraun með kjarnorkusprengju í nótt. Norður-kóreska ríkisfréttastofan sagði sprenginguna hafa gengið að óskum og að ekki bæri á neinum geislavirkum leka. Sprengjan virðist ekki hafa verið mjög stór, en ýmislegt varðandi hana er enn á huldu.

Jörð skalf í norð-austurhluta Norður-Kóreu um hálftvöleytið í nótt, þegar kjarnorkusprengjan sprakk neðanjarðar í Kilju í Hamgyong héraði. Jarðskjálftamælar í Japan sýndu skjálfta upp á fjóra komma tvo á Richter og var strax ljóst að hann væri ekki af náttúrulegum orsökum. Norður-kóreska ríkisfréttastofan KCNA birti skömmu síðar opinbera yfirlýsingu þar sem sagði að kjarnorkutilraunin hefði gengið vel.

Ekki eru nágrannarnir í suðri sammála því. Mikil mótmæli brutust út í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu þegar fréttir bárust af sprengingunni. Eftir fjögurra ára samningaviðræður var þetta ekki árangurinn sem vonast var eftir. Sprengjan virðist hins vegar ekki hafa verið mjög stór, franskir sérfræðingar hafa áætlað að hún hafi verið um hálft kílótonn. Það jafngildir kraftinum í fimm hundruð tonnum af TNT sprengiefni. Rússar telja hana þó hafa verið mun stærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×